Mál nr. 34/2020

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari) gegn Jerzy Wlodzimierz Lubaszka (Bjarni G. Björgvinsson lögmaður)
Lykilorð
  • Fíkniefnalagabrot.
  • Sönnunarmat.
  • Stjórnarskrá.
Útdráttur
X var ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa ásamt Y staðið að innflutningi á fíkniefnum ætluðum til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Með héraðsdómi var Y sakfelldur en X sýknaður af ákærunni þar sem sök þótti ekki sönnuð gegn neitun hans. Með dómi Landsréttar var X sakfelldur fyrir brotið og gert að sæta fangelsi í 5 ár. Við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti skoraðist X undan að gefa skýrslu um sakargiftir. Engin frekar sönnunarfærsla fór fram fyrir réttinum utan þess að spiluð var hljóðupptaka af skýrslu lögreglumanns. Í dómi Hæstaréttar kom fram að sá háttur Landsréttar að endurskoða þrátt fyrir þetta sönnunargildi munnlegra framburða X og Y, hefði verið í bága við regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu og því í ósamræmi við áskilnað um réttláta málsmeðferð, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hinn áfrýjaði dómur var því ómerktur og málinu vísað aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. nóvember 2020 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd

3. Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verið ómerktur en til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Til þrautavara krefst hann þess að refsing sín verði milduð.

Ágreiningsefni

4. Með ákæru héraðssaksóknara 21. desember 2017 var ákærða og Jerzy Arkadiusz Ambrozy (hér eftir nefndur meðákærði) gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið saman að innflutningi á samtals 11.550 millilítrum af vökva sem innihélt amfetamínbasa, sem hafði 23% styrkleika, ætlaðan til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Í verknaðarlýsingu ákærunnar sagði að þeir hefðu flutt fíkniefnin frá Póllandi til Íslands í 23 hálfslítraplastflöskum sem faldar voru í eldsneytistanki bifreiðar af gerðinni Citroen C5 með skráningarnúmerið WGM 04322 sem meðákærði var farþegi í og ákærði ók frá Varsjá í Póllandi til Þýskalands, þaðan til Hirtshals í Danmörku og þaðan með farþegaferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar þriðjudaginn 3. október 2017. Var þetta talið varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

5. Ákærði var sýknaður með héraðsdómi 25. apríl 2018 af brotinu þar sem sök þótti ekki sönnuð. Meðákærði var hins vegar sakfelldur fyrir brotið og refsing hans ákveðin fangelsi í 6 ár og 6 mánuði. Hann undi dóminum. Ákæruvaldið áfrýjaði málinu og krafðist þess að ákærði yrði sakfelldur í samræmi við ákæru og honum gerð refsing. Með dómi Landsréttar 20. desember 2019 var ákærði sakfelldur fyrir brotið og gert að sæta fangelsi í 5 ár.

6. Með ákvörðun Hæstaréttar 30. október 2020 var ákærða veitt leyfi til að áfrýja málinu til réttarins. Í ákvörðuninni var tekið fram að mikilvægt væri að fá úrlausn réttarins um hvort málsmeðferðin í Landsrétti hefði verið fullnægjandi með tilliti til meginreglunnar um milliliðalausa sönnunarfærslu. Þá væri jafnframt haft í huga að ákærði hefði verið sakfelldur í Landsrétti eftir að hafa verið sýknaður í héraði.

Málsatvik

7. Eins og greinir í ákæru fóru ákærði og meðákærði akandi á Citroen bifreið frá Varsjá í Póllandi um Þýskaland og til Hirtshals í Danmörku. Þeir munu hafa lagt af stað 29. september 2017 og ók ákærði bifreiðinni. Frá Danmörku tóku þeir ferjuna Norrænu til Seyðisfjarðar og komu til landsins 3. október sama ár.

8. Samkvæmt skýrslu tollgæslunnar voru ákærði og meðákærði teknir í úrtaksskoðun við komu til landsins. Töldu tollverðir að frásögn þeirra um að tilgangur fararinnar væri að leita sér að byggingarvinnu hér á landi hefði verið ótrúverðug í ljósi þess að þeir höfðu ekki með sér fatnað til slíkra starfa. Við ítarlega leit í bifreiðinni hefði seta aftursæta verið fjarlægð en við það hefði gosið upp mikil bensínlykt. Þar undir var eldsneytistankur bifreiðarinnar og hefði bensínsmit á loki tanksins bent til þess að átt hefði verið við hann. Þegar tankurinn var opnaður hefðu komið í ljós 23 flöskur með fíkniefnum en hver þeirra rúmaði hálfan lítra. Samtals nam það efni sem lagt var hald á 11.550 millilítrum. Eftir að efnin fundust voru ákærði og meðákærði handteknir og gert að sæta gæsluvarðhaldi frá 4. október 2017. Ákærði sætti gæsluvarðhaldi til 25. apríl 2018.

9. Tekin voru til rannsóknar sýni úr öllum flöskunum sem fundust í bifreiðinni. Samkvæmt matsgerðum Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði hjá Háskóla Íslands 16. október 2017 og 4. apríl 2018 reyndist amfetamínbasi vera 23% af þunga sýnis í þrettán flöskum og 24% í tíu flöskum. Með bréfi 13. október 2017 fór lögregla þess á leit að rannsóknarstofan léti í ljós álit á því, miðað við styrkleika efnisins, hvert magn þess gæti orðið í neyslustyrkleika. Í matsgerð rannsóknarstofunnar 23. sama mánaðar var talið að magn þess gæti orðið um 42 kílógrömm ef styrkleiki amfetamíns yrði um 5,8%, en það hlutfall tæki mið af meðaltalsstyrkleika þess efnis sem lögregla hefði lagt hald á árin 2005 og 2006. Miðað var við að 2% af efninu færu forgörðum við að breyta vökva í duft. Það tap gæti ekki verið minna en yrði væntanlega meira í höndum viðvaninga.

Sönnunarfærsla fyrir Landsrétti

10. Í greinargerð til Landsréttar kom fram að ákæruvaldið teldi ekki nauðsynlegt að teknar yrðu munnlegar skýrslur fyrir réttinum. Þó tók ákæruvaldið fram að það teldi upplýsandi að spiluð yrði í réttinum skýrsla nafngreinds lögreglumanns fyrir héraðsdómi en hann hefði borið um óvenjuleg hljóð í bifreiðinni sem heyrst hefðu þegar hann ók henni frá Seyðisfirði til Egilsstaða. Í greinargerð ákærða til Landsréttar kom fram að ekki væri talin þörf á munnlegum skýrslum fyrir réttinum. Því væri hins vegar ekki andmælt að skýrsla lögreglumannsins yrði spiluð en það væri þó þarflaust sökum þess að vitnið væri eitt til frásagnar um hljóð í bifreiðinni og skýrsla þess lægi orðrétt fyrir í endurriti.

11. Landsréttur hélt undirbúningsþinghald 24. október 2019, samkvæmt 3. mgr. 204. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, með sækjanda og verjanda ákærða. Þar kom fram breytt afstaða ákæruvaldsins til þess hvort ákærði gæfi skýrslu fyrir réttinum. Við nánari skoðun teldi ákæruvaldið í það minnsta nauðsynlegt að spila upptöku af skýrslu ákærða fyrir héraðsdómi og teldi rétturinn ástæðu til að ákærði gæfi skýrslu væri því ekki andmælt. Af hálfu verjanda ákærða kom fram að hann teldi ekki nauðsynlegt að ákærði gæfi skýrslu aftur fyrir Landsrétti en ekki væru gerðar athugasemdir við það. Loks áréttaði ákæruvaldið að spiluð yrði í réttinum fyrrgreind skýrsla lögreglumanns og var því ekki andmælt af hálfu verjanda ákærða.

12. Hinn 25. október 2019 tók Landsréttur þá ákvörðun, samkvæmt 2. mgr. 110. gr. og 1. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008, að beina því til ákæruvaldsins að leiða ákærða fyrir réttinn til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins. Einnig var ákveðið að spila við aðalmeðferðina skýrslu lögreglumannsins fyrir héraðsdómi en þar gaf hann símaskýrslu.

13. Við aðalmeðferð málsins í Landsrétti kom ákærði fyrir dóminn og neytti réttar síns samkvæmt 2. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008 til að skorast undan að gefa skýrslu fyrir dómi um þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Einnig var spiluð hljóðupptaka af skýrslu lögreglumannsins. Frekari munnleg sönnunarfærsla fór ekki fram fyrir Landsrétti.

Úrlausn málsins

Meginreglan um milliliðalausa sönnunarfærslu

14. Svo sem áður greinir var ákvörðun Hæstaréttar um að heimila áfrýjun málsins reist á því að mikilvægt væri að fá úrlausn réttarins um hvort sú málsmeðferð sem fram fór í Landsrétti væri fullnægjandi með tilliti til meginreglunnar um milliliðalausa sönnunarfærslu. Ef annmarki verður talinn á aðferð við sönnunarmat sem er til þess fallinn að hafa áhrif á niðurstöðu máls getur það leitt til þess að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, sbr. dóm Hæstaréttar 15. október 2020 í máli nr. 16/2020.

15. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar ber öllum réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér með réttlátri málsmeðferð fyrir dómi. Efnislega hliðstætt ákvæði er í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur lagagildi hér á landi eftir lögum nr. 62/1994. Þáttur í réttlátri málsmeðferð hefur verið talinn að sönnunarfærsla í sakamálum skuli vera milliliðalaus, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 29. nóvember 2012 í máli nr. 429/2012. Nánari útfærslu á áskilnaðinum um réttláta málsmeðferð er að finna d-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans, sem mælir fyrir um að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli ekki njóta minni réttar en að fá að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum. Jafnframt skuli séð til þess að vitni sem beri honum í vil komi fyrir dóm og séu spurð á sama hátt og þau vitni sem leidd eru gegn honum. Eins og nánar er rakið í dómi réttarins 18. febrúar 2021 í máli nr. 30/2020 er þessi áskilnaður talinn liður í réttlátri málsmeðferð samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.

16. Reglan um milliliðalausa sönnunarfærslu birtist einnig í 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 en þar segir að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð séu fram við meðferð máls fyrir dómi. Þá segir í 1. mgr. 112. gr. sömu laga að öflun sönnunargagna skuli að jafnaði fara fram fyrir þeim dómara sem fer með málið og kveður upp dóm í því. Þessar reglur gilda um meðferð máls fyrir Landsrétti, sbr. 210. gr. laganna.

17. Í umræddri reglu felst að ákærði og vitni, sem leidd eru fyrir dóm, skuli gefa skýrslu fyrir þeim dómendum sem skera úr um sekt eða sýknu ákærða, auk þess sem skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn skulu lögð fyrir þá. Að baki þessu búa þau rök að með því að dómari kynni sér sönnunargögn af eigin raun, þar á meðal hlýði sjálfur á framburð ákærða og vitna, sé líklegra að hann dæmi málið á réttum grundvelli. Þetta er í samræmi við aðra meginreglu sem gildir í sakamálaréttarfari um að leiða skuli hið sanna í ljós eða það sem nefnt hefur verið sannleiksreglan.

18. Hæstiréttur hefur ítrekað slegið því föstu að líta beri til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu við skýringu ákvæða mannréttindasáttmálans þegar reynir á hann sem hluta af landsrétti. Jafnframt ber að skýra önnur lög til samræmis við sáttmálann og úrlausnir mannréttindadómstólsins enda verður að gera ráð fyrir að þau samrýmist skuldbindingum Íslands að þjóðarétti í samræmi við þá venjuhelguðu reglu í norrænum rétti að lög verði túlkuð til samræmis við þjóðréttarsamninga eftir því sem frekast er kostur. Hér má meðal annars vísa til dóms Hæstaréttar 19. maí 2005 í máli nr. 520/2004 þar sem vísað var til túlkunar mannréttindadómstólsins á d-lið 3. mgr. 6. gr. sáttmálans.

19. Í dómaframkvæmd mannréttindadómstólsins hefur ítrekað reynt á þær kröfur sem gerðar eru til milliliðalausrar sönnunarfærslu til að tryggja réttláta málsmeðferð á áfrýjunarstigi við endurskoðun á dómi undirréttar sem sýknað hefur ákærða. Hér má nefna dóma 19. febrúar 1996 í máli nr. 16206/90, Botten gegn Noregi, 5. júlí 2011 í máli 8999/07, Dan gegn Moldóvu, og 9. janúar 2018 í máli nr. 36676/06, Ghincea gegn Rúmeníu. Að því er varðar dómsmál rekin hér á landi má benda á dóm réttarins 15. júlí 2003 í máli nr. 44671/98, Sigurþór Arnarsson gegn Íslandi, og dóma réttarins 16. júlí 2019 í máli nr. 36292/14, Styrmir Þór Bragason gegn Íslandi, og máli nr. 38797/17, Júlíus Þór Sigurþórsson gegn Íslandi. Af þessum dómum má meðal annars draga þá ályktun að á dómstóli á áfrýjunarstigi geti hvílt frumkvæðisskylda við sönnunarfærslu svo að til álita komi að ákærði verði sakfelldur fyrir æðri dómi eftir að hafa verið sýknaður á lægra dómstigi.

20. Í samræmi við fyrrgreinda sannleiksreglu getur dómari þurft að hafa frumkvæði að því að viðhlítandi upplýsingar komi fram í máli svo að það verði dæmt á réttum grundvelli. Þannig segir í 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 að eftir því sem dómari telur nauðsynlegt til að upplýsa mál eða skýra það sé honum rétt að beina því til ákæranda að afla gagna um tiltekin atriði þess. Þessi grunnregla kemur einnig fram í 168. gr. sömu laga en þar segir að telji dómari eftir dómtöku máls nauðsynlegt að fram komi frekari gögn ellegar að spyrja þurfi ákærða eða vitni nánar skuli hann kveðja aðila fyrir dóm og eftir atvikum leggja spurningar fyrir þá og beina því til ákæranda að afla frekari gagna eða leiða tiltekin vitni fyrir dóm. Þetta á einnig við um meðferð mála fyrir Landsrétti, sbr. 210. gr. laganna. Jafnframt segir í 2. mgr. 204. gr. laganna að Landsréttur geti beint því til aðila að afla gagna um tiltekin atriði til að ráða bót á málatilbúnaði sem er áfátt. Hvað sem þessu líður skal áréttað að sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag hvílir á ákæruvaldinu, auk þess sem allan skynsamlegan vafa um sönnun ber að virða honum í hag, sbr. 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laganna. Af þessu leiðir að ákærði verður sýknaður ef ákæruvaldið axlar ekki þá sönnunarbyrði sem á því hvílir. Hér er þess jafnframt að gæta að enn ríkari skyldur hvíla á ákæruvaldinu að þessu leyti við meðferð áfrýjaðs máls þegar ákærði hefur verið sýknaður í héraði enda hefur ákærði skiljanlega síður hagsmuni af því að sönnunarfærsla verði endurtekin þegar þannig hagar til.

Reglur um sönnunarfærslu fyrir Landsrétti

21. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 196. gr. laga nr. 88/2008 verður héraðsdómi áfrýjað til Landsréttar til að fá endurskoðun á niðurstöðum sem byggðar eru á mati á sönnunargildi gagna eða munnlegs framburðar fyrir héraðsdómi. Í e-lið 2. mgr. 203. gr. laganna segir síðan að í greinargerð málsaðila skuli koma fram hvort hann telur nauðsynlegt að afla munnlegra skýrslna fyrir Landsrétti, og þá hverra, ásamt rökstuðningi þar að lútandi, þar á meðal fyrir því hvers vegna ekki sé nægjanlegt að byggja á hljóð- og myndupptökum, sbr. 3. mgr. 13. gr. laganna. Jafnframt skal koma fram hvaða upptökur af skýrslum fyrir héraðsdómi aðili telji nauðsynlegt að spila við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti. Dómsformaður tekur að jafnaði einn ákvörðun um hvaða skýrslur verði teknar fyrir dóminum eða spilaðar þar, eftir atvikum að undangengnu undirbúningsþinghaldi, sbr. 3. mgr. 204. gr. og 3. málslið 2. mgr. 205. gr. laganna. Aðalmeðferð með sönnunarfærslu fer síðan fram í samræmi við 1. mgr. 206 gr. laganna.

22. Umræddum ákvæðum laga nr. 88/2008 var komið í þetta horf með lögum nr. 49/2016 en þau ásamt lögum nr. 50/2016 um dómstóla fólu í sér þá breytingu á dómstólaskipaninni að dómstigum var fjölgað úr tveimur í þrjú með Landsrétt sem millidómstig. Í því fólst sú meginbreyting að heimilt var að leita endurskoðunar á áfrýjunarstigi á öllum þáttum héraðsdóms, þar á meðal mati á sönnunargildi munnlegs framburðar eftir þeim reglum sem hér hafa verið raktar.

23. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 49/2016 kom fram að meðal helstu nýmæla frumvarpsins var að allar skýrslutökur í héraði yrðu teknar upp í hljóði og mynd til að unnt yrði að spila upptökurnar við aðalmeðferð fyrir Landsrétti ef þess gerðist þörf við endurskoðun sönnunarmats. Í athugasemdum við 59. gr. frumvarpsins sagði jafnframt að talsverðar breytingar yrðu á sönnunarfærslu á áfrýjunarstigi við aðalmeðferð í sakamálum með tilkomu Landsréttar og væru þær fyrst og fremst í anda meginreglunnar um milliliðalausa sönnunarfærslu. Í frumvarpinu væri gert ráð fyrir að málsaðilum gæfist kostur á að leiða ný vitni og taka viðbótarskýrslur af ákærðu og vitnum sem gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi. Þá yrðu allar skýrslur í héraði teknar upp í hljóði og mynd og afrit af upptökunum send Landsrétti sem hluti af gögnum máls. Myndupptökurnar yrðu þannig aðgengilegar dómurum sakamáls í Landsrétti en að auki yrði unnt að fara fram á að einstakar skýrslur eða hluti af þeim yrðu spilaðar við aðalmeðferð máls ef þörf þætti vegna endurmats á sönnunargildi munnlegs framburðar. Eftir sem áður væri þó gert ráð fyrir að við sönnunarfærslu fyrir Landsrétti yrði að miklu leyti stuðst við endurrit af framburði ákærðu og vitna fyrir héraðsdómi, enda væri mikið hagræði í því fólgið fyrir málsaðila og dómendur og málsmeðferðin yrði til muna skilvirkari með því móti. Sá möguleiki að leiða ný vitni og taka viðbótarskýrslur, svo og að spila upptökur af skýrslum sem teknar voru í héraði, væri til þess fallinn að Landsréttur gæti endurskoðað sönnunargildi munnlegs framburðar og skorið úr um sekt eða sýknu á grundvelli heildarmats á öllum sönnunargögnum, þar með talið munnlegum framburði.

Niðurstaða

24. Í niðurstöðu sinni vísaði héraðsdómur til þess að meðákærði hefði fengið ákærða til ferðarinnar til Íslands sem bílstjóra. Ekkert lægi fyrir um að ákærði hefði haft nokkur samskipti við aðra í Póllandi en meðákærða fyrir ferðina. Ákærði hefði ekki vitað hvaða erindi meðákærði átti til landsins og ekkert vitað um þann mann sem meðákærði kvað hafa fengið sig til fararinnar. Þá væru hvorki fyrir hendi upplýsingar um símtöl né smáskilaboð sem tengdu ákærða við málið þannig að benti til sektar hans eins og raunin væri með meðákærða. Enginn vitnisburður eða önnur gögn tengdu ákærða þannig við málið að unnt væri að draga af þeim þá ályktun að hann hefði vitað eða mátt vita af fíkniefnum sem falin voru í eldsneytistanki bifreiðarinnar. Að öllu þessu og öðrum gögnum málsins virtum þótti sök ákærða ósönnuð gegn neitun hans og var hann sýknaður. Af þessu má ætla að héraðsdómur hafi talið að ekkert væri komið fram sem dregið gæti úr trúverðugleika framburðar ákærða. Aftur á móti taldi héraðsdómur frásögn meðákærða ótrúverðuga um þátt hans og sakfelldi hann.

25. Með hliðsjón af þessari niðurstöðu héraðsdóms um sýknu ákærða og þegar virt er sönnunarstaða málsins var óhjákvæmilegt að sönnunarfærsla færi fram fyrir Landsrétti og þurfti hún að vera milliliðalaus í samræmi við þær reglur sem hér hafa verið raktar. Við þetta sönnunarmat þurfti ákærði og eftir atvikum meðákærði að gefa skýrslu fyrir réttinum og ef það var ekki unnt, svo sem vegna þess að þeir neyttu réttar til að skorast undan því, gat endurskoðun á sönnunarmati héraðsdóms farið fram með því að spila upptökur í hljóði og mynd af skýrslum þeirra í héraði í samræmi við fyrrgreindar reglur laga nr. 88/2008. Um gildi slíkrar sönnunarfærslu má til hliðsjónar benda á fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 30/2020. Í þessum efnum verður aftur á móti ekki fallist á með ákæruvaldinu að það eitt dugi að dómurinn hafi haft aðgang að upptökunum sem eru meðal gagna málsins án þess að nokkuð liggi fyrir um hvort dómendur hafi skoðað þær. Til að rétturinn geti með viðhlítandi hætti endurskoðað sönnunarmat héraðsdóms að þessu leyti er nauðsynlegt að upptökur sem skipta máli við sönnunarmat séu spilaðar við aðalmeðferð málsins þannig að málflutningur í kjölfarið geti tekið til þeirrar sönnunarfærslu. Jafnframt getur að þessu leyti hvílt skylda á réttinum til að hafa frumkvæði að slíkri sönnunarfærslu sem lýtur að upptökum sem liggja fyrir í gögnum málsins.

26. Eins og áður er rakið skoraðist ákærði undan að gefa skýrslu um sakargiftir fyrir Landsrétti. Því fór engin sönnunarfærsla fram fyrir réttinum ef frá er talið að spiluð var símaskýrsla fyrir héraðsdómi af lögreglumanni sem ók bifreiðinni með fíkniefnunum frá Seyðisfirði til Egilsstaða. Þrátt fyrir þetta endurskoðaði Landsréttur sönnunargildi munnlegra framburða og komst að þeirri niðurstöðu að skýringar ákærða og meðákærða um að tilgangur ferðarinnar hefði í og með verið atvinnuleit væru mjög óljósar og ótrúverðugar, sbr. 13. og 16. lið dómsins. Þessi aðferð við sönnunarmat Landsréttar fór í bága við regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu og var því í ósamræmi við áskilnað um réttláta málsmeðferð, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þar sem aðferð við sönnunarmatið var að þessu leyti ófullnægjandi verður að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

27. Í málinu er ákærði saksóttur fyrir brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga. Ekki verður refsað fyrir slíkt brot nema ásetningur hafi staðið til þess enda hefur ákvæðið ekki að geyma sérstaka heimild til að refsa fyrir gáleysisbrot, sbr. 18. gr. laganna. Í hinum áfrýjaða dómi sagði að miðað við þá málsvörn ákærða að honum hefði verið alls ókunnugt um að fíkniefni væru falin í eldsneytistanki bifreiðarinnar réðist niðurstaða málsins af mati á því hvort ákærði hafi „mátt vita‟ eða að líklegt væri að tilgangur fararinnar væri að flytja ólögleg fíkniefni til landsins, sbr. 12. lið dómsins. Jafnframt sagði í dóminum að gögn málsins gæfu tilefni til að ætla að ákærði hefði hlotið að vita eða „mátt vita‟ eða „mátt gera sér grein fyrir‟ að fíkniefnin gætu verið falin í bifreiðinni, sbr. 14. og 16. lið dómsins. Þá sagði í héraðsdómi, eins og áður greinir, að ekkert benti til að ákærði hefði vitað eða „mátt vita‟ að fíkniefni væru falin í bifreiðinni. Þessi röksemdafærsla lýtur öðrum þræði að gáleysi sem grundvelli saknæmis en það á ekki við um brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga eins og rakið hefur verið.

28. Ákvörðun um sakarkostnað bíður nýs dóms í málinu. Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða með virðisaukaskatti, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Bjarna G. Björgvinssonar lögmanns, 1.240.000 krónur.