Mál nr. 101/2021

prufa (Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Aðalsteinn E. Jónasson lögmaður) gegn prufa (Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Aðalsteinn E. Jónasson lögmaður)
Lykilorð

    Reifun

    L hf. höfðaði mál gegn E og krafðist greiðslu skuldar samkvæmt lánssamningi í breskum pundum. Lánið hafði E tekið vegna uppgjörs á sjálfskuldarábyrgð sem hann hafði gengist undir ásamt öðrum fyrir greiðslu á fjölmyntaláni milli L hf. og H ehf. (síðar E ehf.) Vegna vanskila E ehf. hafði L hf. beint kröfum sínum að sjálfskuldarábyrgðarmönnum til uppgjörs á samningnum. L hf. lýsti í framhaldinu kröfu í þrotabú E ehf. en lækkaði hana síðar vegna greiðslna frá ábyrgðarmönnum sem ráðstafað hafði verið inn á lánið. Ágreiningur málsins laut í fyrsta lagi að ætluðu vanhæfi tveggja dómara Landsréttar, í öðru lagi hvort lánssamningurinn milli L hf. og H ehf. sem E gekkst í ábyrgð fyrir hefði verið lögmætt lán í erlendri mynt, í þriðja lagi hvort það lán hefði verið uppgreitt og að lokum var ágreiningur um túlkun á 103. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í dómi Hæstaréttar kom fram að enda þótt landsréttardómarinn A hefði í lögmannsstörfum sínum gætt réttar L hf. í málum er vörðuðu svipaða lánssamninga og reyndi á í málinu hefði ekkert komið fram um að dómarinn hefði á nokkru stigi komið að lögfræðilegri ráðgjöf eða hagsmunagæslu fyrir L hf. í tengslum við sakarefni þessa máls. Var hann því ekki talinn vanæfur á grundvelli b-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá var meðal annars með vísan til forsendna dóms Hæstaréttar 26. mars 2019 í máli nr. 14/2019 ekki fallist á að dómarinn A hefði á grundvelli g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 verið vanhæfur til að fara með málið. Að því er varðaði landsréttardómarann H kom fram í dómi réttarins að enda þótt hún hefði sem héraðsdómari dæmt í öðrum málum sem hefðu varðað sama lánssamning og þetta mál laut að þá teldist hún ekki hafa annast dómstörf í þessu máli á lægra dómstigi og var hún því ekki talin vanhæf til meðferðar málsins fyrir Landsrétti á grunni g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Þá taldi Hæstiréttur með vísan til dóms réttarins 11. maí 2017 í máli nr. 587/2016 og annarra atriða varðandi lánssamninginn milli L hf. og H ehf. að samningurinn hefði ekki verið lán í íslenskum krónum með ólögmætri bindingu við gengi erlends gjaldmiðils. Ekki var fallist á að sú skuld hefði verið uppgreidd og að greiðslur E samkvæmt lánssamningi hans og L hf. myndu leiða til ólögmætrar auðgunar L hf. Að lokum vísaði rétturinn til þess að með yfirlýsingu hefði E lýst því yfir að hann hefði fengið hlutabréf í H ehf. í skiptum fyrir ábyrgð sína og ætti enga aðra kröfu á hendur þrotabúi E ehf. Var tekið fram að óháð því hvort réttur E til greiðslu á grundvelli 103. gr. og 104. gr. laga nr. 21/1991 hefði verið fyrir hendi væri ljóst að með yfirlýsingunni hefði hann fallið frá kröfum um greiðslur úr þrotabúi E ehf. og gæti því ekki borið fyrir sig ætlað tjón af völdum L hf. vegna þess að L hf. hefði lækkað kröfulýsingu sína í þrotabúð. Var krafa L hf. því tekin til greina.

    Dómur Hæstaréttar.

    Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

    Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. maí 2020. Hann krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar á öllum dómstigum.

    Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

    I

    Ágreiningur málsins lýtur í fyrsta lagi að ætluðu vanhæfi tveggja þeirra dómara Landsréttar sem lögðu dóm á málið og ætluðum annmörkum á samningu dómsins. Þá er í annan stað deilt um það hvort lánssamningur 27. júlí 2005 milli Landsbanka Íslands hf. og Hydra ehf., sem áfrýjandi gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir ásamt 23 öðrum einstaklingum og einu einkahlutafélagi, hafi verið lögmætt lán í erlendri mynt. Í þriðja lagi er um það deilt hvort lánið er uppgreitt. Að síðustu er ágreiningur um túlkun á 103. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og réttaráhrif ákvæðisins.

    Í málinu krefur stefndi áfrýjanda um greiðslu á 6.300.599 króna eftirstöðvum láns sem áfrýjandi tók til uppgjörs á fyrrgreindri sjálfskuldarábyrgð sinni. Með dómi Landsréttar var áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda umkrafða fjárhæð með dráttarvöxtum. Í dóminum var     vísað til þess að fyrrgreindur lánssamningur 27. júlí 2005 hefði verið lögmætt lán í erlendum gjaldmiðli, en auk þess lægi fyrir að áfrýjandi hefði gengist í ábyrgð fyrir tiltekinni fjárhæð í sterlingspundum og verið skuldbundinn gagnvart stefnda samkvæmt henni. Þá taldi Landsréttur að 103. gr. laga nr. 21/1991 tæki samkvæmt orðanna hljóðan aðeins til óskiptrar ábyrgðar og yrði því ekki beitt um skipta ábyrgð eins og hér hagaði til. Með vísan til þess taldi Landsréttur engin efni til að fallast á að víkja bæri samningi áfrýjanda og stefnda til hliðar á grundvelli ógildingarreglna laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Enn fremur sagði í dómi Landsréttar að gögn málsins bæru með sér að fyrir hendi væri skuld samkvæmt lánssamningnum sem ekki hefði verið greidd og því væri áfrýjandi greiðsluskyldur.

    Í beiðni um áfrýjunarleyfi vísaði áfrýjandi til þess að hann teldi dóm Landsréttar rangan, bæði að formi til og efni. Um formið vísaði hann til vanhæfis tveggja dómara Landsréttar á grundvelli b- og     g-liða 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í tilviki annars þeirra en á grundvelli g-liðar sömu greinar í tilviki hins. Þá uppfyllti dómurinn ekki þær kröfur sem gera yrði til rökstuðnings í dómum samkvæmt f-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 3. og 4. mgr. 164. gr. sömu laga. Enn fremur taldi áfrýjandi að ekki hefði farið fram heildarmat á öllum atvikum í þeim tilgangi að skera úr um hvort lánssamningurinn 27. júlí 2005 hefði haft að geyma ólögmætt gengistryggingarákvæði. Þá hefði málið einnig verulegt almennt gildi um túlkun á 103. gr. laga nr. 21/1991. Var fallist á beiðni um áfrýjunarleyfi á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðnin var reist á.

    II

    1

    Áfrýjandi gekkst ásamt 23 einstaklingum og einu einkahlutafélagi í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu á „fjölmyntaláni“ til fimm ára samkvæmt lánssamningi 27. júlí 2005 milli Landsbanka Íslands hf. og Hydra ehf. að ,,jafnvirði kr. 80.000.000,- krónur áttatíumilljónir 00/100, í neðanskráðum myntum og hlutföllum: GBP 100%“. Lánsfjárhæðin, að frádregnum lántökukostnaði, 79.190.000 krónur, var greidd inn á íslenskan bankareikning Hydra ehf. 2. ágúst 2005 í samræmi við viðauka samningsins um útborgun 27. júlí sama ár. Samkvæmt grein 3.1 í lánssamningnum lofaði lántaki að greiða bankanum vexti sem skyldu vera breytilegir vextir jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 2,25% vaxtaálags. Í 10. grein samningsins var fjallað um tryggingar og sagði þar: ,,Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra lánshluta samnings þessa takast eftirfarandi aðilar á hendur sjálfskuldarábyrgð pro rata fyrir nánar tilgreindri upphæð á fullum efndum allra skuldbindinga skv. samningi þessum ... Einar Dagbjartsson ... GBP 44.918“. Sjálfskuldarábyrgðin tók til ,,greiðslu höfuðstóls allra lánshluta, auk vaxta, dráttarvaxta og vaxtavaxta, svo og alls kostnaðar, sem af vanskilum kann að leiða. Ábyrgðin gildir jafnt þótt greiðslufrestur verði veittur á skuldbindingum skv. samningi þessum einu sinni eða oftar, uns skuldin er að fullu greidd.“

    Fjárhæð ábyrgðarskuldbindingar áfrýjanda og hinna 24 ábyrgðaraðilanna ákvarðaðist af þeirri hlutafjáraukningu sem þeir voru skráðir fyrir í Hydra ehf. á þessum tíma. Lánið bar að greiða að fullu með tuttugu jöfnum afborgunum á þriggja mánaða fresti. Fyrsti gjalddagi afborgana skyldi vera 10. september 2005. Hydra ehf. greiddi fyrstu þrjár afborganir lánsins en eftir það fór lánið í vanskil.

    Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 20/2020 sem flutt var og er dæmt samhliða þessu máli var gerð grein fyrir tveimur viðaukum við lánssamninginn. Þar sagði að endursamið hafi verið um greiðsluskilmála lánssamningsins, fyrst 1. nóvember 2006 og síðan 27. nóvember 2007. Samkvæmt fyrri viðaukanum voru eftirstöðvar lánsins 12.695.404 krónur og 528.680,94 sterlingspund miðað við 11. september 2006. Í viðaukanum kom fram að eftirleiðis skyldi sú grein samningsins sem fjallaði um lánstíma og endurgreiðslur vera á þann hátt að Hydra ehf., sem þá hafði fengið nafnið Eignarhaldsfélagið City Star Airlines ehf., bæri að greiða 12.695.404 krónur og 89.184 sterlingspund 25. mars 2007 sem ráðstafa ætti til greiðslu áfallinna vaxta og lækkunar höfuðstóls lánsins. Þegar sú greiðsla hefði verið innt af hendi myndaðist nýr höfuðstóll lánsins í sterlingspundum sem bæri að endurgreiða að fullu með 13 jöfnum afborgunum á þriggja mánaða fresti, fyrst 25. júní 2007. Jafnframt þessu var þeirri grein samningsins sem fjallaði um vaxtakjör breytt. Í framhaldinu greiddi Eignarhaldsfélagið City Star Airlines ehf. að hluta til inn á umsamda afborgun með gjalddaga í mars 2007, í fernu lagi, en síðan fór lánið aftur í vanskil. Voru greiðslurnar ýmist í íslenskum krónum eða sterlingspundum. Í síðari viðaukanum 27. nóvember 2007 kom fram að eftirstöðvar lánsins miðað við 25. október 2007 næmu 551.934,87 sterlingspundum og gjaldfallnar afborganir 11.722.422 krónum. Lántaki skyldi greiða áfallna vexti og dráttarvexti til 25. október 2007, nánar tiltekið 21.189,64 sterlingspund og 1.019.701 krónu. Gegn þeirri greiðslu átti Landsbanki Íslands hf. að endurfjármagna eftirstöðvar lánsins miðað við gengi sterlingspunds þann dag sem     undirritaður viðauki bærist bankanum. Umsaminn lánstími var þrjú ár og lánið skyldi greiðast með tíu jöfnum afborgunum á þriggja mánaða fresti og var fyrsti gjalddagi afborgana 25. mars 2008. Vexti skyldi greiða á þriggja mánaða fresti út lánstímann, fyrst 25. desember 2007. Lántaki greiddi fyrsta vaxtagjalddagann 28. sama mánaðar vegna áfallinna vaxta frá 25. október 2007 til 27. desember sama ár, en það var síðasta greiðsla félagsins inn á lánið. Eftirstöðvar höfuðstóls eftir síðustu greiðslu voru 615.477,04 sterlingspund.

    2

    Vegna vanskila Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. á greiðslu afborgana samkvæmt lánssamningnum 27. júlí 2005 beindi Landsbanki Íslands hf. kröfum sínum að sjálfskuldarábyrgðarmönnum, þar á meðal áfrýjanda, til uppgjörs á samningnum. Í kjölfar þess gerði áfrýjandi lánssamning við bankann 25. júní 2008 að fjárhæð 45.053,16 sterlingspund. Lánið var til þriggja ára og skyldi greiða með sex jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti og skyldi greiða afborganir, vexti, dráttarvexti og aðrar greiðslur í íslenskum krónum. Skilyrði fyrir útborgun lánsins var að bankanum bærist beiðni um útborgun. Áfrýjandi óskaði eftir því að lánið yrði greitt út 6. ágúst 2008 og var útborgaðri lánsfjárhæð, 41.918 sterlingspundum, ráðstafað til greiðslu inn á fyrrgreindan lánssamning 27. júlí 2005 í samræmi við fyrirmæli í viðauka 25. júní 2008 við síðari lánssamninginn. Hinn 17. maí 2010 var gerður viðauki við lánssamninginn. Samkvæmt viðaukanum var eftirstöðvum lánsins myntbreytt í íslenskar krónur og höfuðstóll lánsins lækkaður um 25%. Samkvæmt honum voru eftirstöðvar lánsins þann dag 22.526,58 sterlingspund og 3.075.254 krónur og gjaldfallnir ógreiddir vextir 280,41 sterlingspund og 801.736 krónur sem áfrýjandi greiddi. Lánstímanum var breytt þannig að eftirstöðvar lánsins 6.238.773 krónur skyldu greiðast að fullu með 18 jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti og var fyrsti gjalddagi lánsins 1. júlí 2010. Vextir voru breytilegir og skyldu reiknast frá 17. maí 2010 og voru þá 5,8%. Lánið var verðtryggt samkvæmt vísitölu neysluverðs og skyldi höfuðstóll breytast í hlutfalli við breytingar á grunnvísitölu sem var við gerð viðaukans 362,9 stig. Með viðauka við lánssamninginn 17. ágúst 2010 var gjalddagi lánsins færður til 1. janúar 2011 en að öðru leyti hélst hann óbreyttur. Hinn 11. ágúst 2011 var aftur gerður viðauki við lánssamninginn. Samkvæmt honum voru eftirstöðvar lánsins 1. júlí 2011 með gjaldföllnum afborgunum og vöxtum 6.404.311 krónur. Lánstímanum var breytt þannig að eftirstöðvarnar skyldu greiðast að fullu með 120 jöfnum afborgunum á mánaðar fresti. Enn var gerður viðauki við lánssamninginn 20. júní 2012. Samkvæmt honum voru eftirstöðvar lánsins 1. júní 2012 með gjaldföllnum afborgunum og vöxtum 6.308.322 krónur. Lánstímanum var breytt þannig að eftirstöðvarnar skyldu greiðast að fullu með 103 jöfnum afborgunum á mánaðar fresti og lánið bundið við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar með grunnvísitölu í júní 2012 sem var 398,2 stig. Með innheimtubréfi 25. september 2013 gjaldfelldi stefndi höfuðstól lánsins. Þar kemur fram að eftirstöðvar höfuðstóls séu þá 6.189.204 krónur og samningsvextir og verðbætur 111.395 krónur. Samtala eftirstöðva nam því 6.300.599 krónum og er það stefnufjárhæð málsins.

    Auk áfrýjanda gerðu 19 aðrir sjálfskuldarábyrgðarmenn upp sína ábyrgðarhluta á tímabilinu 19. júní til 4. september 2008 og voru þannig samtals 78.960.613 krónur greiddar inn á skuld samkvæmt lánssamningnum 27. júlí 2005. Bú Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines     ehf. (áður Hydra ehf.) hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta 28. maí 2008 og námu þá vanskil vegna lánsins 93.204.643 krónum. Aðrir sjálfskuldarábyrgðarmenn munu ekki hafa gert upp sína ábyrgðarhluta.

    3

    Með kröfulýsingu 28. júlí 2008 lýsti Landsbanki Íslands hf. kröfu í bú Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. að fjárhæð 93.204.643 krónur vegna fyrrgreinds lánssamnings 27. júlí 2005.     Með bréfi Landsbanka Íslands hf. til skiptastjóra þrotabúsins 15. september 2008 var tilkynnt að verið væri að vinna í því að fá sjálfskuldarábyrgðarmenn til þess að ,,kaupa sig út úr láninu“. Vinnu við það væri næstum lokið. Í samræmi við þetta sendi bankinn nýja kröfulýsingu en samkvæmt henni var krafa hans lækkuð í 21.333.498 krónur vegna greiðslna frá ábyrgðarmönnum sem ráðstafað hafði verið inn á lánið. Þá kröfu samþykkti skiptastjóri þrotabúsins með fyrirvara um endanlega fjárhæð kröfunnar vegna greiðslna ábyrgðarmanna. Eftir að dómur Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 gekk freistaði skiptastjóri þess að breyta afstöðu sinni til viðurkenningar kröfunnar með því að hafna henni eða lækka. Ágreiningi um viðurkenningu hennar var vísað til dómstóla og í dómi Hæstaréttar 1. mars 2013 í máli nr. 116/2013 var komist að þeirri niðurstöðu að krafan hefði verið endanlega samþykkt á skiptafundi 29. júní 2010 sem almenn krafa í þrotabúið að fjárhæð 21.339.723 krónur, enda hefðu engin mótmæli komið fram gegn afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar á kröfunni, sbr. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991.     

    Áfrýjandi lýsti ekki kröfu í þrotabúið en á fyrrgreindum skiptafundinum 29. júní 2010 var meðal annars fjallað um lýstar kröfur tveggja ábyrgðarmanna vegna ábyrgðarinnar. Skiptastjóri samþykkti kröfur þeirra með fyrirvara um endanlega fjárhæð ábyrgðarinnar, þar sem fyrir lá að stefndi hafði þá höfðað mál á hendur þeim tveimur til innheimtu kröfu samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu þeirra. Á fundinum var jafnframt lögð fram yfirlýsing annarra ábyrgðarmanna, þar á meðal áfrýjanda, þar sem sagði: ,,Við undirrituð, sem erum í ábyrgð á láni ... hjá Landsbanka Íslands sem Eignarhaldsfélagið City Star ... tók 27.07.2005, vottum með undirskrift okkar hér að neðan, að við fengum hlutabréf í skiptum fyrir ábyrgð okkar og eigum enga aðra kröfu á hendur þrotabúi Eignarhaldsfélagsins City Star. Þ.a.l. mótmælum við kröfu þeirri sem 2 aðrir ábyrgðarmenn á þessu láni ... hafa gert í þrotabúið.“

    Hinn 15. mars 2013 úthlutaði skiptastjóri þrotabúsins til stefnda 6.373.959 krónum upp í kröfuna og 15. janúar 2014 var úthlutað 598.938 krónum upp í hana eða samtals 6.972.897 krónum. Í málinu er ekki tölulegur ágreiningur með aðilum um að hefði Landsbanki Íslands hf. haldið sig við upphaflega kröfulýsingu í þrotabúið að fjárhæð 93.204.643 krónur, og sú krafa verið samþykkt, hefði honum verið úthlutað 19.822.624 krónum upp í kröfuna.

    Með bréfi stefnda til áfrýjanda 11. janúar 2012 var tilkynnt að lán áfrýjanda samkvæmt lánssamningnum 25. júní 2008, sem hann tók til að gera upp ábyrgð á lánssamningnum 27. júlí 2005, félli ekki undir fordæmisgildi dóms Hæstaréttar í máli nr. 155/2011 og yrði ekki endurútreiknað.

    Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008, sem tekin var í kjölfar þess að það tók yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf., vék stjórn félagsins frá og setti yfir það skilanefnd, eignaðist stefndi kröfu þá sem um er deilt á hendur áfrýjanda.

    4

    Áfrýjandi byggir í fjórða lagi á því að bankinn hafi valdið sér tjóni með því að lækka kröfulýsingu sína og lýsa ekki heildarkröfu sinni í þrotabú Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines     ehf., sbr. 103. gr. laga nr. 21/1991. Af málatilbúnaði áfrýjanda verður ráðið að hann telji tjón sitt felast í því að við lækkun kröfulýsingarinnar hafi bankinn fallið frá rétti til greiðslu úr þrotabúinu á kostnað áfrýjanda. Afleiðingar þessa hafi verið þær að bankinn hefði þá farið á mis við að fá greiddar 12.849.727 krónur til viðbótar frá þrotabúinu sem koma hefðu átt áfrýjanda til góða og nægt hefðu til að gera upp skuld hans við stefnda.

    Eins og rakið var í kafla II undir 3. lið var á skiptafundi í þrotabúinu lögð fram yfirlýsing ábyrgðarmanna, þar á meðal áfrýjanda, þar sem fram kom að þeir lýstu því yfir að þeir ættu enga kröfu á hendur þrotabúinu.

    Stefndi hefur frá upphafi mótmælt því að áfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni af þeim sökum að bankinn hafi lækkað kröfulýsingu sína í þrotabúið og meðal annars bent á að áfrýjandi hefði ekki lýst kröfu sinni í það, en fyrir því gætu verið ýmsar ástæður. Við málflutning stefnda fyrir Hæstarétti kom fram að það hafi fyrst verið eftir fyrirspurn til skiptastjóra þrotabúsins í tilefni af fyrirhuguðum málflutningi sem honum hafi borist í hendur framangreind yfirlýsing sjálfskuldarábyrgðarmanna á lánssamningnum. Yfirlýsingin var lögð fram fyrir Hæstarétti áður en frestur til framlagningar gagna var liðinn og var um hana fjallað í munnlegum málflutningi fyrir réttinum. Þegar af þeirri ástæðu að yfirlýsingin stafar frá áfrýjanda sjálfum verður á henni byggt þrátt fyrir mótmæli hans.

    Áfrýjandi ritaði undir umrædda yfirlýsingu um að hann hefði fengið hlutabréf í Hydra ehf. ,,í skiptum fyrir ábyrgð“ og ætti enga ,,aðra“ kröfu á hendur þrotabúinu. Af þessari yfirlýsingu er áfrýjandi bundinn og fyrir liggur að hann lýsti ekki kröfu í búið. Óháð því hvort réttur áfrýjanda til greiðslu á grundvelli 103. og 104. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið fyrir hendi er ljóst að með fyrrgreindri yfirlýsingu féll hann frá kröfu um greiðslur úr þrotabúi Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. og getur því ekki borið fyrir sig ætlað tjón af völdum stefnda vegna þess að hann hafi lækkað kröfulýsingu sína í þrotabúið. Við þetta er hann bundinn og ber að greiða þá kröfu sem stefndi hefur uppi í málinu á hendur honum á grundvelli lánssamnings 25. júní 2008.

    Að öllu framangreindu virtu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur og áfrýjandi dæmdur til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

    Dómsorð:

    Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

    Áfrýjandi, Einar Dagbjartsson, greiði stefnda, Landsbankanum hf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.