Mál nr. 31/2020

Elvar Már Atlason () og Sveinn Rafn Eiríksson (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður) gegn Hildi Lilliendahl Viggósdóttur (enginn )
Lykilorð
  • Kærumál.
  • Hæfi dómara.
  • Stjórnarskrá.
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu.
  • Réttlát málsmeðferð.
Útdráttur
E og S kröfðust þess að landsréttardómarinn AE viki sæti í máli þeirra á hendur H vegna ætlaðrar neikvæðrar afstöðu hennar til lögmanns þeirra vegna starfa hans við rekstur dómsmáls fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu er varðaði skipun hennar við Landsrétt. Máli sínu til stuðnings vísuðu E og S til opinberlega birtra skrifa eiginmanns AE annars vegar í yfirlýsingu sem lögð var fram fyrir Mannréttindadómstólnum og hins vegar í Facebook-færslu hans og til ummæla mágs AE við þá færslu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt vinátta eða fjandskapur dómara eða einstaklinga sem nákomnir væru dómaranum við lögmann aðila geti undir vissum kringumstæðum valdið því að óhlutdrægni dómara verði með réttu dregin í efa, yrði þó ekki beitt jafn ströngum mælikvarða og þegar málsaðili ætti í hlut. Þá yrðu ummælum einstaklinga nákominna dómaranum ekki jafnað til ummæla dómarans sjálfs. Að virtu efni ummæla eiginmanns AE og mágs hennar taldi Hæstiréttur ekkert komið fram í málinu sem valdið gæti því að draga mætti óhlutdrægni AE með réttu í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfu E og S um að AE viki sæti í málinu var því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 19. október 2020 en kærumálsgögn bárust réttinum sama dag. Kærður er úrskurður Landsréttar 9. október 2020 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að landsréttardómarinn Arnfríður Einarsdóttir viki sæti í máli varnaraðila gegn sóknaraðilum. Kæruheimild er í b-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að fyrrnefnd krafa þeirra verði tekin til greina.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I

1

Sóknaraðilar höfðuðu málið á hendur varnaraðila til ómerkingar ummæla og greiðslu miskabóta 20. september 2018. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2019 voru kröfur sóknaraðila teknar til greina. Varnaraðili skaut málinu til Landsréttar 15. október 2019. Í kjölfar þess að aðilum var tilkynnt um hvaða dómarar tækju sætu í dómi í málinu kröfðust sóknaraðilar þess að einum dómaranna, Arnfríði Einarsdóttur, yrði gert að víkja sæti. Þeirri kröfu hafnaði Landsréttur með hinum kærða úrskurði.

2

Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson var lögmaður sóknaraðila í þessu máli fyrir héraðsdómi og Landsrétti og er það einnig fyrir Hæstarétti. Hann var jafnframt verjandi manns, Guðmundar Andra Ástráðssonar, sem ákærður var í janúar 2017 í öðru máli, alls ótengdu þessu máli og dæmdur þar til refsingar í dómi uppkveðnum í héraði 23. mars sama ár. Sá dómur var staðfestur með dómi Landsréttar 23. mars 2018. Síðastnefndum dómi var áfrýjað til Hæstaréttar 20. apríl sama ár og krafðist ákærði í því máli þess aðallega að dómurinn yrði ómerktur. Var krafan reist á því í meginatriðum að nánar tilgreindir annmarkar hefðu verið á skipun Arnfríðar Einarsdóttur, eins þriggja dómara í málinu fyrir Landsrétti og hefðu þeir valdið því að ekki væri fullnægt skilyrði 59. gr. stjórnarskrárinnar og 2. málsliðar 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um að skipun dómara skuli vera ákveðin með lögum. Þetta hafi að auki leitt til þess að fyrir Landsrétti hafi ákærði í því máli ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. málslið 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans. Þessari kröfu var hafnað í dómi Hæstaréttar 24. maí 2018 í máli nr. 10/2018 og dómur Landsréttar staðfestur.

Dómfelldi í hæstaréttarmálinu nr. 10/2018 bar fram kvörtun við Mannréttindadómstól Evrópu 31. maí 2018, sem reist var á sama grunni og fyrrnefnd aðalkrafa hans fyrir Hæstarétti og gætti sami lögmaður hagsmuna dómfellda á þeim vettvangi. Mannréttindadómstóllinn kvað upp dóm 12. mars 2019 í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn Íslandi og komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu með því að kærandi hafi ekki við meðferð máls síns fyrir Landsrétti notið réttar til að fá leyst úr því fyrir dómstóli sem skipaður hafi verið að lögum. Byggðist sú niðurstaða einkum á því að málsmeðferð við skipun dómarans hefði falið í sér alvarleg brot á lögum sem gilt hafi um skipunina. Íslenska ríkið óskaði eftir því að málinu yrði vísað til yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu, sbr. 43. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, og var orðið við þeirri beiðni. Dómur yfirdeildar í málinu var kveðinn upp 1. desember 2020. Þar var staðfest að íslenska ríkið hefði brotið gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Niðurstaða dómstólsins byggðist á því að svo alvarlegir ágallar hefðu verið á málsmeðferð við skipun dómarans að vegið hefði verið að kjarna réttar kæranda til meðferðar fyrir dómstóli sem skipaður væri að lögum.

3

Arnfríður Einarsdóttir var öðru sinni skipuð dómari við Landsrétt með skipunarbréfi forseta Íslands 16. júní 2020 að undangengnu hæfnismati þar sem hún var metin hæfust umsækjenda og hefur frá þeim tíma sinnt dómstörfum við dómstólinn.

Sóknaraðilar reisa kröfu sína um að dómarinn víki sæti á því að hún hafi beinna og verulegra hagsmuna að gæta af niðurstöðu dómsmáls þess sem lögmaður þeirra rak fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Neikvæð afstaða dómarans í garð lögmanns þeirra sé ekkert leyndarmál enda hafi hún farið víða með þá skoðun sína. Það sama eigi við um eiginmann dómarans, Brynjar Níelsson alþingismann. Sóknaraðilar telja að óánægja og reiði dómarans og eiginmanns hennar vegna þeirra afleiðinga sem dómur mannréttindadómstólsins hafi nú þegar haft fyrir hana hafi því beinst að lögmanni þeirra. Þá sé óvíst hvaða afleiðingar endanlegur dómur Mannréttindadómstóls Evrópu muni hafa fyrir dómarann. Séu því til staðar atvik og aðstæður til þess fallnar að draga megi óhlutdrægni dómarans með réttu í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991.

 Sóknaraðilar benda á að í greinargerð lögmanns þeirra fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu hafi meðal annars verið á því byggt að ,,spilling og valdníðsla“ hafi átt þátt í skipun dómarans og hún hafi verið liður í ,,pólitískum hrossakaupum“ innan Sjálfstæðisflokksins en Brynjar Níelsson eiginmaður dómarans sé þingmaður flokksins. Benda sóknaraðilar því til stuðnings á að fyrir mannréttindadómstólinn hafi verið lögð skrifleg yfirlýsing eiginmannsins 10. janúar 2020 sem beri með sér að hafa verið send að beiðni ríkislögmanns vegna reksturs framangreinds máls fyrir mannréttindadómstólnum. Í upphafsorðum yfirlýsingarinnar komi fram að efni hennar varði viðbrögð við samsæriskenningum um meinta spillingu sem komi fram í greinargerð lögmanns sóknaraðila í framangreindu máli. Sóknaraðilar vísa sérstaklega til eftirfarandi setninga og setningarhluta í yfirlýsingunni:  ,,Þessar aðdróttanir og samsæriskenningar eru hugarburður og eiga sér enga stoð í veruleikanum. Hér er verið að reyna að skapa andrúmsloft spillingar og hrossakaupa án þess að nokkur gögn styðji slíkt ... Þessi tillaga mín virðist vera kveikjan að framangreindum  aðdróttunum og samsæriskenningum kæranda, eða lögmanns hans, en lögmaðurinn skrifaði grein undir eigin nafni í víðlesnasta dagblaði á Íslandi snemma í júlí 2018 þar sem þessar aðdróttanir komu fram ... Að lokum er rétt að taka fram að ég starfaði sem lögmaður á Íslandi í áratugi fram að lokum árs 2015. Ég var einnig formaður Lögmannafélags Íslands frá 2010 til 2012. Ég hef ekki á öllum þeim lögmannsferli mínum orðið vitni að slíkum rakalausum aðdróttunum lögmanns sem koma fram í greinargerð lögmanns kæranda þessa máls.“

Að mati sóknaraðila verði framangreind orð eiginmanns dómarans ekki skilin með öðrum hætti en þeim að lögmaður þeirra hafi gerst sekur um stórkostlegar ærumeiðingar í garð dómarans, eiginmanns hennar og Sigríðar Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, og verði að ætla að dómarinn sé sömu skoðunar. Telja sóknaraðilar fullyrðingu eiginmanns dómarans hlutlægt séð til þess fallna að draga megi með réttu í efa óhlutdrægni dómarans við úrlausn þess máls sem lögmaðurinn reki fyrir þeirra hönd.

Sóknaraðilar vísa enn fremur til skrifa eiginmanns dómarans á opinni Facebook-síðu hans 10. júlí 2018 þar sem hann geri blaðagrein lögmanns sóknaraðila um skipan dómara í Landsrétt að umfjöllunarefni. Í færslunni vísi hann ávirðingum lögmannsins um tengsl tilnefningar Sigríðar Á. Andersen í oddvitasæti lista Sjálfstæðisflokksins og skipun eiginkonu hans í Landsrétt á bug og lýsi þeim sem spörkum í pólitíska andstæðinga. Sóknaraðilar vísa jafnframt til athugasemda Gústafs Níelssonar mágs dómarans við færsluna, en þar spái hann því að lögmannsstörfin verði lögmanni sóknaraðila „þungbær brekka í framtíðinni“. Telja sóknaraðilar opinber skrif eiginmanns dómarans og fyrrgreind ummæli mágs hennar almennt vera til þess fallin að dregið verði með réttu í efa hlutleysi dómarans við úrlausn mála sem lögmaður þeirra reki þar sem hún situr í dómi.

Í málinu hefur auk ofangreindra skjala verið lagt fram skjal á ensku sem ber yfirskriftina „Statement“ og virðist vera ritað 15. janúar 2020 af Sigríði Á. Andersen að beiðni ríkislögmanns til framlagningar í fyrrgreindu máli fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Þar vísa sóknaraðilar sérstaklega til eftirfarandi setningarhluta: ,,As regards AE, which this case is all about“.

Enn fremur hefur verið lagt fram skjal af hálfu sóknaraðila á ensku sem mun vera afrit af spurningum dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, Egidijus Kuris, til lögmanna aðila í fyrrgreindu máli fyrir yfirdeild dómstólsins.

II

1

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að fyrrnefndum lögum segir að skilyrðið um óhlutdrægan dómstól feli í sér áskilnað um að dómari í máli þurfi að vera hlutlaus og að aðilar njóti jafnræðis að því leyti, en ákvæðið sæki fyrirmynd sína til 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Samkvæmt g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 er dómari vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru atvik eða aðstæður sem fallnar eru til þess að draga megi óhlutdrægni hans með réttu í efa. Þegar lagt er mat á hæfi dómara til að fara með mál verður að gæta að því að tilgangur hæfisreglna í réttarfarslögum er ekki einungis að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum máls og efni þess, heldur einnig að tryggja traust aðilanna jafnt sem almennings til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari standi að úrlausn máls í tilviki þar sem réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans. Sé réttmætur vafi um óhlutdrægni dómara er óhjákvæmilegt að hann víki sæti í máli, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 1. júní 2017 í máli nr. 90/2016 og 22. apríl 2015 í máli nr. 511/2014.

Af hálfu sóknaraðila er krafa þeirra um að landsréttardómarinn víki sæti einvörðungu reist á því að hún hafi neikvæða afstöðu til lögmanns þeirra vegna starfa hans í þágu kæranda í fyrrnefndu máli fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu og hafa sóknaraðilar því til stuðnings meðal annars lagt fram framangreind gögn um opinberlega birt skrif eiginmanns dómarans og ummæli mágs hennar við færslu eiginmanns hennar á Facebook-síðu hans.  

2

Samkvæmt dómum Mannréttindadómstóls Evrópu hefur við úrlausn um það hvort dómari telst óvilhallur í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verið greint á milli athugunar er miðar að því að ganga úr skugga um hvaða viðhorf hafa ráðið hjá dómara í tilteknu máli (huglægur mælikvarði) og athugunar á því hvort til staðar eru hlutlæg atriði sem gefi réttmætt tilefni til að draga í efa að dómari sé óvilhallur (hlutlægur mælikvarði).

Samkvæmt hinum huglæga mælikvarða um hæfi dómara verður, varðandi persónulega afstöðu hans, að gera ráð fyrir því að dómari sé hæfur til meðferðar máls nema sýnt sé fram á hið gagnstæða. Af hálfu sóknaraðila hafa ekki verið lögð fram gögn er sýna fram á að Arnfríður Einarsdóttir hafi þá persónulegu afstöðu til málsaðila, sakarefnisins eða lögmanns málsaðila að hæfi hennar verði með réttu dregið í efa. Árétta ber að enda þótt lögmaður sóknaraðila hafi lýst því yfir að ,,spilling og valdníðsla“ hafi átt þátt í skipun dómarans og hún hafi verið liður í ,,pólitískum hrossakaupum“ getur hann ekki með slíkum ummælum valdið því að dómarinn verði talinn vanhæfur til meðferðar máls, enda þótt ummælin eða yfirlýsingin gætu verið til þess fallin að vekja neikvæð hughrif hjá dómara gagnvart þeim sem ummælin stafa frá. Það færi í bága við þá grundvallarreglu, sem er einn þáttur í réttarríki, að aðilar velji sér ekki dómara og dómarar velji sér ekki þau mál sem þeir dæma. 

3

Þegar meta skal hvort draga má óhlutdrægni dómarans með réttu í efa ber jafnframt að líta til þess út frá hlutlægum mælikvarða hvort fyrir hendi eru sýnileg ytri atvik eða aðstæður sem gefi réttmætt tilefni til að óttast megi um hlutlægni hennar í þessu máli. Ekki er nægilegt að dómari sjálfur telji sig óhlutdrægan heldur verður ásýnd dómstóls að vera með þeim hætti að ekki sé uppi réttmætur vafi um hlutlægni dómara. Eins og rakið hefur verið hlaut Arnfríður Einarsdóttir öðru sinni skipun í embætti dómara við Landsrétt 16. júní 2020. Ekki hefur verið sýnt fram á að hún hafi slíka persónulega eða fjárhagslega hagsmuni af fyrrgreindu máli sem lögmaður sóknaraðila hefur rekið fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu og lauk með dómi 1. desember 2020 að réttmætt tilefni sé af þeirri ástæðu til að draga óhlutdrægni hennar í máli þeirra í efa.

Þau tilvik sem sóknaraðilar telja valda því að draga megi hlutlægni dómarans í efa eru annars vegar ummæli eiginmanns hennar í færslu á Facebook-síðu hans og athugasemd mágs hennar við þá færslu og hins vegar yfirlýsing sem eiginmaður hennar gaf við rekstur fyrrgreinds máls sem lögmaður aðila málsins rak fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Um þessi atriði ber að horfa til þess að þótt vinátta eða fjandskapur dómara eða einstaklinga sem nákomnir eru dómaranum við lögmann aðila geti undir vissum kringumstæðum valdið því að óhlutdrægni dómara verði með réttu dregin í efa verður þó ekki beitt jafn ströngum mælikvarða og þegar málsaðili á í hlut, sbr. dóm Hæstaréttar 7. febrúar 2007 í máli nr. 57/2007.

Ummæli eiginmanns dómarans voru sett fram á opinni Facebook-síðu hans þar sem hann brást við skrifum í blaðagrein lögmanns sóknaraðila sem fjallaði um aðdraganda að skipun dómara í Landsrétt í tengslum við framangreint mál fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Yfirlýsing eiginmanns dómarans sem hann gaf að ósk ríkislögmanns var sett fram vegna þess sama máls. Í upphafsorðum yfirlýsingarinnar kom fram að efni hennar varði viðbrögð við samsæriskenningum um meinta spillingu sem settar séu fram í greinargerð lögmanns sóknaraðila fyrir mannréttindadómstólnum. Ummælin, sem rakin voru í I. kafla undir lið 3, fela í báðum tilvikum í sér neikvæða afstöðu til málatilbúnaðar lögmanns sóknaraðila í því máli. Á hitt ber að líta að þau lutu einvörðungu að störfum lögmannsins í tengslum við málið sem hann rak fyrir mannréttindadómstólnum en með engum hætti að sakarefni máls þessa eða aðilum þess. Þá verður slíkum ummælum eiginmanns dómarans, sem fela í sér neikvæða afstöðu til starfa lögmanns sóknaraðila í tilteknu máli, ekki jafnað til ummæla dómarans sjálfs.

  Ummæli mágs dómarans á Facebook-síðu eiginmanns hennar um að lögmanni sóknaraðila muni reynast lögmannstörfin ,,þungbær brekka“ í framtíðinni lúta á hinn bóginn ekki að tilteknu máli heldur að störfum lögmanns sóknaraðila í framtíðinni. Ummælin eru gildishlaðin en þau ber að skoða í ljósi þess sem að framan er rakið að neikvæð afstaða einstaklinga nákominna dómaranum til lögmanns aðila verða ekki lögð að jöfnu við slíka afstöðu dómarans sjálfs. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að dómarinn hafi hvatt til ummæla eiginmanns síns og mágs, samþykkt þau eða að þau endurspegli huglæga afstöðu dómarans til lögmanns sóknaraðila, sbr. til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 18. júlí 2019 í máli Rustavi 2 Broadcasting Company LTD og fleiri gegn Georgíu.

Þegar allt framangreint er virt hefur ekkert komið fram í málinu sem valdið getur því að draga megi óhlutdrægni landsréttardómarans Arnfríðar Einarsdóttur með réttu í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Kröfu sóknaraðila um að hún víki sæti í málinu er því hafnað og hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.