13. júlí 1994                                                                         Nr. 461
 

REGLUR

um dómsgerðir í einkamálum og opinberum málum.

 

    Eftir beiðni Hæstaréttar eða ríkissaksóknara skal héraðsdómstóll gera dómsgerðir í máli og hafa þær tilbúnar innan mánaðar frá því að beiðni berst. Beiðni skal vera bréfleg eða send með símbréfi. Í dómsgerðum skulu vera:
Endurrit af dómi, úrskurði, dómsátt, viðurlagaákvörðun eða annarri ákvörðun, sem hefur leitt mál til lykta.
Endurrit af því sem hefur verið skráð um mál í þingbók, þar á meðal endurgerð af hljóðupptökum.
Frumrit af framlögðum skjölum í máli.
Héraðsdómur í tölvutæku formi.

 

    Dómsgerðir skulu vera heftar saman í eitt eða eftir atvikum fleiri hefti. Á tiltilsíðu skal tekið fram að dómsgerðirnar séu í máli með tilteknu heiti og númeri og á tilteknum fjölda blaðsíðna, en undir dagsetningu skal dómari rita nafn sitt til staðfestingar á dómsgerðunum og setja við hana stimpil dómstólsins. Ef dómsgerðir eru í tveimur eða fleiri heftum skal hvert þeirra áritað með þessum hætti og tekið fram hve mörg heftin eru.
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 4. mgr. 156. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 10.gr. laga nr. 38/1994, og 3. mgr. 154. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 14. gr. laga nr. 37/1994.