Prófmál - leiðbeiningar
    Meðal þeirra skilyrða sem héraðsdómslögmaður þarf að uppfylla til að öðlast rétt til málflutnings fyrir Hæstarétti er að hafa sýnt fram á með prófraun sem felst í munnlegum flutningi fjögurra mála, sem flutt eru í Hæstarétti fyrir fimm eða sjö dómurum, þar af að minnsta kosti tveggja einkamála, að hann sé hæfur til að öðlast réttindin, sbr. 4. tl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Samkvæmt niðurlagsákvæði 2. mgr. sömu lagagreinar skulu dómendur Hæstaréttar sem skipa dóm í viðkomandi máli meta hvort umsækjandi stenst prófraun.
Hér fara á eftir ábendingar Hæstaréttar um atriði sem væntanlegir hæstaréttarlögmenn ættu að hafa í huga þegar þeir þreyta þessa prófraun.

    Þegar prófmaður tekur við máli liggja fyrir skriflegar greinargerðir málsaðila, sbr. í einkamálum 2. mgr. 156. gr. og 1. mgr. 159. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála (EML) og í sakamálum 1. og 2. mgr. 203. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála (SML). Jafnframt er þá runninn út sá almenni frestur sem málsaðilar hafa til að leggja fram ný gögn, en um þetta gilda að nokkru mismunandi reglur eftir því hvort um einkamál eða sakamál ræðir, sjá viðeigandi ákvæði nefndra laga. Engar nýjar heimildir skapast fyrir málsaðila í þessum efnum þó að mál þeirra séu flutt sem prófmál fyrir Hæstarétti, hvorki til að leggja fram nýja greinargerð né önnur skjöl. Hið sama gildir um áætlaðan ræðutíma, sbr. 2. mgr. 160. gr. EML og 2. mgr. 205. gr. SML. Vilji prófmaður óska eftir breytingu á áætluðum ræðutíma getur hann sent Hæstarétti sérstakt erindi þar að lútandi með hæfilegum fyrirvara. Það athugist að hér sem endranær ber að senda málflutningsumboðsmanni gagnaðila afrit af erindi sem sent er Hæstarétti.

    Prófmanni er rétt að leggja fyrir Hæstarétt skriflegt yfirlit um tímaröð málsatvika með vísan til blaðsíðutals í málsgögnum sé slíkt yfirlit ekki þegar þar að finna (sjá 9. tl. reglna um málsgögn í einkamálum) sem og efnisyfirlit málflutningsræðu sinnar. Þá skal hann afhenda réttinum skrá yfir tilvitnanir í fræðirit og dóma, sem hann hyggst styðjast við í málflutningi, sbr. 4. mgr. 161. gr. EML og 2. mgr. 205. gr. SML. Æskilegt er að með fylgi ljósrit úr fræðiritum þar sem sérstaklega er auðkennt það sem vitnað er til. Sé vitnað til fordæma Hæstaréttar eða annarra dómsúrlausna er hentugt að saminn sé útdráttur úr dómi þar sem grein er gerð fyrir því atriði sem byggt er á við málflutninginn og ljósrit dóms látið fylgja eftir atvikum. Þess ber að gæta að frágangur þessara hjálpargagna sé markviss og ekki lagðir fram textar sem prófmaður getur ekki gert nákvæma grein fyrir hvaða þýðingu hafi við úrlausn máls. Æskilegt er að þau gögn sem hér eru nefnd hafi borist Hæstarétti í sex eintökum (átta ef sjö dómarar sitja í dómi) eigi síðar en fjórum starfsdögum fyrir málflutning og þá verið send málflutningsumboðsmanni gagnaðila um leið.

    Þegar prófmaður flytur fyrsta prófmál sitt er viðeigandi að hann strax að loknu upphafsávarpi til réttarins og lögmanns gagnaðila kynni sig og geri í stuttu máli grein fyrir menntun sinni, starfsferli, öðrum högum og núverandi starfi. Hann ætti síðan að lýsa fyrirheiti um að vilja rækja með trúmennsku og samviskusemi þau málflutningsstörf við réttinn, sem honum verði falin, standist hann prófraunina.

    Í 3. mgr. 162. gr. EML og 2. mgr. 206. gr. SML er vikið að efni málflutningsræðunnar. Þegar kröfum er lýst má með leyfi forseta vísa til lýsingar á kröfum sem áður er fram komin í þinghaldinu, sbr. 1. mgr. 162. gr. EML og 1. mgr. 206. gr. SML. Við málflutninginn ber eins og í nefndum lagaákvæðum greinir að beina honum að þeim atriðum sem ágreiningi valda og forðast málalengingar. Til þess að málflutningur verði markviss og skilvirkur er nauðsynlegt að leggja rækt við undirbúning ræðunnar. Prófmaður þarf, á sama hátt og málflytjendur endranær, að vera undir það búinn að svara spurningum dómenda um hvaðeina sem við sögu kemur í málinu, þó að prófmaður hafi ekki ætlað að gera viðkomandi atriði að sérstöku umræðuefni við ræðuflutninginn.

    Við flutning ræðunnar ber prófmanni að vanda málfar sitt, tala skýrt og greinilega og standa kyrr við ræðupúltið. Munnlegur málflutningur á ekki að vera upplestur frá orði til orðs á fyrirfram skrifuðum texta. Sé stuðst við skrifaðan ræðutexta þarf að gæta þess að flutningur hans sé ekki í upplestrarstíl heldur eins og raunverulegur munnlegur málflutningur. Beri dómari upp spurningu skal prófmaður ekki byrja að svara henni fyrr en viðkomandi dómari hefur lokið við að bera hana upp. Svar á að einskorðast við það atriði sem um er spurt. Prófmaður getur óskað eftir að svara spurningu í síðari ræðu ef hann er ekki tilbúinn með svar. Þess þarf að gæta þegar spurningum er svarað að gera dómurum ekki upp afstöðu til sakarefnis og gæta þarf þess að bera ekki upp spurningar við dómara nema að því leyti sem nauðsynlegt kann að vera til að fá skýringu á fram borinni spurningu hans. Sé lesið upp úr málsgögnum þarf að tilgreina blaðsíðutal og nánari staðsetningu textans. Gæta þarf virðingar við ræðuflutninginn bæði við dóminn, málsaðila, aðra málflytjendur og sakarefni málsins. Jafnan ber að vísa til dómenda og annarra málflytjenda í þriðju persónu. Komi til þess að prófmanni hafi ekki tekist að ljúka flutningi ræðu sinnar á þeim tíma sem áætlun ræðutímans ráðgerir ætti hann að gera hlé á ræðu sinni eigi síðar en á því augnabliki og leita leyfis forseta fyrir stuttum viðbótartíma. Þess ber að gæta að við upphaflega áætlun á ræðutíma þarf að gera ráð fyrir hæfilegum tíma sem spurningar dómenda geti tekið. Síðari ræða er einungis ætluð til að svara því sem fram hefur komið í síðustu ræðu lögmanns gagnaðila. Þannig á málflytjandi einungis í seinni ræðu að svara því sem fram hefur komið við málflutning annarra eftir að hann lauk fyrri ræðu sinni. Í síðari ræðu á því ekki að fjalla um ný atriði sem láðst hefur að nefna í fyrri ræðu, nema sérstakt tilefni hafi gefist til þess hjá öðrum málflytjendum eftir að fyrri ræðan var flutt.

    Að því er snertir háttsemi í dómsalnum skulu málflytjendur gæta að því að vera sestir í sæti sín áður en dómendur ganga í salinn. Þegar dómarar birtast ber öllum viðstöddum að rísa úr sætum. Hið sama á við þegar dómarar yfirgefa salinn. Málflytjendur skulu standa þegar þeir ávarpa réttinn. Slökkt skal á farsímum og myndavélar eiga ekki heima í dómsalnum. Þá ættu málflytjendur að vera snyrtilega klæddir og karlmenn með hálstau. 

Þannig samþykkt á dómarafundi í
Hæstarétti 22. september 2009