REGLUR

um nafnleynd í útgáfu hæstaréttardóma 

___________________

 

1. gr.

    Við opinbera birtingu dóma Hæstaréttar skal í áfrýjuðum sakamálum gæta nafnleyndar um aðra en ákærða. Nafnleyndar skal gæta um lögaðila ef nafnleyndar ber að gæta um fyrirsvarsmann hans. Í kærðum sakamálum skal gæta nafnleyndar um sakborninga, brotaþola og vitni, sbr. þó 3. gr. Á það jafnt við um einstaklinga sem lögaðila.

    Ef ákærði er sýknaður í dómi Hæstaréttar skal gæta nafnleyndar um hann. Einnig skal gæta nafnleyndar um ákærða sem sakfelldur eða sýknaður hefur verið í héraði ef þeirri niðurstöðu hefur ekki verið áfrýjað til Hæstaréttar.

    Ef birting á nafni ákærða getur talist andstæð hagsmunum brotaþola eða annars vitnis, svo sem vegna fjölskyldutengsla, skal nafnleyndar einnig gætt um ákærða. Í slíkum tilvikum er þó heimilt að afmá úr dómi þá hluta hans sem gefa til kynna tengsl ákærða við brotaþola eða vitni og komast þannig hjá því að gæta nafnleyndar um ákærða.

2. gr.

    Nafnleyndar skal gæta um aðila og vitni í einkamálum sem fjalla um viðkvæm persónuleg málefni, svo sem í málum sem varða læknamistök, sifja- og erfðamálum, málum sem varða forsjá barna og aðra hagsmuni þeirra, lögræðissviptingu eða nauðungarvistun.


3. gr.

    Í tilvikum þar sem nafnleyndar er gætt um málsaðila skal að öðru jöfnu einnig gæta hennar um matsmenn og aðra sem láta í té sérfræðilegt álit, svo sem í málum sem varða forsjá barna og aðra hagsmuni þeirra og skaðabótamál vegna líkamstjóns.

4. gr.

    Gæta skal nafnleyndar í einkamálum og sakamálum um viðkvæmar heilsufarsupplýsingar, svo sem sjúkdómsheiti, nema tilgreining slíkra upplýsinga sé nauðsynleg forsenda niðurstöðu í dómi Hæstaréttar.


5. gr.

    Ef sérstakar ástæður mæla með því getur forseti Hæstaréttar ákveðið að gæta nafnleyndar í ríkara mæli en mælt er fyrir um í 1. gr. til 4. gr., svo sem þegar hagsmunir málsaðila eða annarra einstaklinga eða lögaðila eru sérstaklega þungvægir eða vegna fámenns landsvæðis þar sem atvik máls gerðust.

6. gr.

    Þegar nafnleyndar er gætt skal afmá öll atriði úr úrlausn héraðsdóms og dómi Hæstaréttar sem tengt geta málsaðila eða aðra einstaklinga eða lögaðila við sakarefnið.


Reglur þessar voru samþykktar á fundi dómara Hæstaréttar Íslands 14. febrúar 2014.

Reykjavík, 12. mars 2014
Þorsteinn A. Jónsson,
skrifstofustjóri