Reglur

um útgáfu hæstaréttardóma1. gr.
Útgáfa hæstaréttardóma

Hæstiréttur Íslands annast og ber ábyrgð á útgáfu hæstaréttardóma. Skulu allir dómar Hæstaréttar gefnir út prentaðir í dómasafni og auk þess birtir á heimasíðu hans, sbr. þó 4. gr. Hæstiréttur ber allan kostnað af útgáfu hæstaréttadóma.


2. gr.
Tilhögun útgáfu

Við útgáfu og birtingu hæstaréttardóma fylgir dómi í hverju máli reifun á efnisatriðum hans. Jafnframt fylgir viðkomandi dómur eða úrskurður héraðsdóms. Texti slíks dóms eða úrskurður er á forræði á ábyrgð viðkomandi héraðsdómara, en leiðrétta má þó augljósar ritvillur, auk þess sem nauðsynlegar breytingar verði gerðar á textanum vegna ákvæða 3. gr.
Heimilt er að stytta eða fella niður dóma eða úrskurði héraðsdóms í prentaðri útgáfu dómsins.


3. gr.
Nafnleynd

Við birtingu dóma í dómasafni eða á heimasíðu Hæstaréttar skal í opinberum málum gæta nafnleyndar um aðra en ákærða. Ef ákærði er sýknaður í máli eða birting á nafni hans getur talist andstæð hagsmunum brotaþola skal nafnleyndar einnig gætt um ákærða. Jafnframt skal gæta nafnleyndar í einkamálum sem fjalla um viðkvæm persónuleg málefni, svo sem málum um forsjá barna og aðra hagsmuni þeirra, um lögræðissviptingu og nauðungarvistun, um erfðir, um slit hjúskapar og óvígðrar sambúðar, svo og í málum þar sem fjallað er um viðkvæmar heilsufarsupplýsingar. Forseti Hæstaréttar getur að öðru leyti ákveðið nafnleynd í einstökum málum, ef sérstakar ástæður mæla með því.
Þegar nafnleyndar er gætt skal afmá öll atriði úr úrlausn héraðsdóms og dómi Hæstaréttar, sem tengt geta málsaðila eða aðra einstaklinga við sakarefnið.

4. gr.
Frestun á útgáfu dóms

Hæstiréttur getur ákveðið að fresta útgáfu eða birtingu dóms í máli, þar sem leyst er úr kröfu lögreglu eða ákæruvalds um gæsluvarðhald samkvæmt a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála eða kröfu um heimild til annarra aðgerða við rannsókn máls, sem sýnilega verða leynt að fara til að spilla ekki fyrir henni. Slík frestun skal að öðru jöfnu ekki ákveðin til lengri tíma en þriggja mánaða, en Hæstiréttur getur þó að beiðni lögreglu eða ákæruvalds framlengt þann tíma ef ljóst þykir að birting dóms gæti stefnt rannsókn í hættu. 


5. gr.
Gildistaka

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 11. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, öðlast gildi 1. janúar 2003.Hæstiréttur Íslands, 17. desember 2002.